Félagslög

LEIKFÉLAG FLJÓTSDALSHÉRAÐS

FÉLAGSLÖG

1.grein:     Félagið heitir Leikfélag Fljótsdalshéraðs. Heimili þess er á Egilsstöðum en félagssvæði þess er Fljótsdalshérað og nærsveitir.

2.grein:     Tilgangur félagsins er að efla hvers konar sviðslistir á félagssvæðinu.

3.grein:     Inngöngu í félagið geta allir fengið er hafa áhuga á sviðslistum og vilja styrkja starfsemi félagsins. Nýir félagar tilkynni sig til stjórnar og/eða mæti á aðalfund. Úrsagnir skulu vera með sama hætti.

4.grein:     Stjórn félagsins skipa 5 menn sem kosnir eru á aðalfundi félagsins til tveggja ára í senn. Formaður, sem kosinn er sérstaklega, 4 stjórnarmenn sem skipta með sér verkum þannig: Ritari, gjaldkeri og 2 meðstjórnendur. Þá skulu einnig kosnir til tveggja ára 2 menn til vara í stjórn og 2 skoðunarmenn. Kosning skal vera skrifleg. Uppástungur um menn til stjórnarkjörs og trúnaðarstarfa skulu heimilaðar á fundinum.

 (NB: Á aðalfundi 2016, þegar 4. grein þessara laga er breytt, skal kjósa formann, einn stjórnarmann og annan varamanninn til eins árs.)

5.grein:     Formaður boðar til stjórnar- og félagsfunda og stýrir þeim. Stjórnin skal í sameiningu taka ákvarðanir um öll málefni félagsins. Haldin skal gjörðabók um það sem gerist á fundum þessum.

6.grein:     Stjórnin ákveður í samráði við félagsfund hvaða verk skuli tekin til sýninga hverju sinni, ræður leiðbeinanda/leikstjóra og sér um allan undirbúning leiksýninga.

7.grein:     Aðalfundur félagsins skal haldinn árlega og eigi síðar en 31. maí ár hvert. Aukafundir skulu haldnir þegar stjórn telur þess þörf eða ef 1/3 hluti félagsmanna eða 10 félagar æskja þess. Skulu fundir boðaðir með auglýsingu á almennum vettvangi með minnst 7 daga fyrirvara. Fundir eru lögmætir séu þeir boðaðir sem að framan greinir án tillits til þess hve margir mæta. Reikningsár félagsins er frá 1. janúar til 31.desember.

Störf aðalfundar skulu vera sem hér segir:

  1.  Skýrsla stjórnar: Formaður lýsir störfum félagsins á liðnu leikári.
  2.  Gjaldkeri gerir grein fyrir reikningum liðins árs og skulu þeir áritaðir af skoðunarmönnum.
  3.  Lagabreytingar, ef fram koma.
  4.  Kosningar skv. 4. grein laga þessara. Fari félagið fram á árstillag félaga skulu einungis skuldlausir félagar hafa kosningarétt og kjörgengi enda liggi listi yfir þá fyrir fundinum.
  5.  Ákvörðun tekin um árstillag félagsmanna á yfirstandandi ári.
  6.  Lögð drög að starfi leikársins.

8.grein:    Verði félagið leyst upp skal afhenda Minjasafni Austurlands eigur félagsins. Það sem safnið tekur ekki til varðveislu skal boðið grunnskólum á starfssvæðinu. Fráfarandi stjórn skal sjá um skiptin.

9.grein:     Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og því aðeins að 2/3 fundarmanna séu samþykkir breytingum.

10.grein:    Lög þessi með áorðnum breytingum öðlast þegar gildi og jafnframt falla lög félagsins frá 22. maí 2013 úr gildi.

Þannig samþykkt á aðalfundi

Leikfélags Fljótsdalshéraðs 22. maí 2016.